Forsíða

Markaðslausnir í sjávarútvegi

 

Allar tilraunir til breytinga á stjórnkerfi fiskveiða eru líklegar til að valda deilum. Það leiðir af sjálfu sér þegar menn hafa margslungna hagsmuni á annað borðið en takmarkaða auðlind á hitt. Helsti vandinn er sá að mönnum hættir til að setja fram of mörg ósamrýmanleg markmið.

Sjávarútvegsráðherra hefur haft frumvarp að nýjum fiskveiðistjórnarlögum í smíðum um hríð. Flestir gera ráð fyrir að það verði eitt af helstu átakamálum Alþingis á úthallandi vetri. Það merkir að litlar líkur eru taldar á að nægjanlega breið samstaða náist um þær hugmyndir.

Þá vaknar áleitin spurning: Er skynsamlegt að efna til átakaumræðu ef ólíklegt er talið að hún leiði til meiri friðar en nú ríkir um þessi mál? Hvað vinnst með því?

Hugmyndir sjávarútvegsráðherra gera ráð fyrir þeirri meginbreytingu að gerðir verði nýtingarsamningar við útgerðir til ákveðins tíma. Jafnframt munu vera áform um að færa gjaldtökuna nær raunverulegum auðlindaskatti og fjær því að vera eins konar sérstakur tekjuskattur eins og verið hefur.

Vinstri stjórnin reyndi að koma fram breytingum sem byggðu á nýtingarsamningahugmyndinni. Þrátt fyrir ýmsa ágalla er hún ekki með öllu fráleit. En þegar til átti að taka var engin eining í þingliði stjórnarinnar um þá leið. Hún naut einnig takmarkaðs stuðnings stjórnarandstöðunnar sem nú situr við ríkisstjórnarborðið.

Satt best að segja virðist ekki vera eftir miklu að slægjast að endurtaka leikinn frá síðasta kjörtímabili.

Markmiðin

Jafnvel þótt unnt væri að knýja fram breytingar við slíkar aðstæður bendir fátt til að með þeim yrði tryggður sá friður sem atvinnugreinin þarfnast.

Aðalatriðið er að menn komi sér saman um markmiðin. Með ákveðinni einföldun má segja að reiptogið hafi staðið um tvö andstæð sjónarmið.

Annars vegar eru félagsleg markmið. Í þeim felst að reglurnar tryggi byggð sem víðast, rekstur sem flestra skipa og atvinnu fyrir fleiri. Pólitíkin ræður þá mestu um þróun atvinnugreinarinnar.

Hins vegar eru efnahagsleg markmið. Í þeim felst að reglurnar knýi á um hagræðingu og arðsemi. Markaðurinn ræður þá mestu um þróun mála.

Kosturinn við félagslegu leiðina er atvinna fyrir fleiri. Ókostirnir felast í lægri tekjum og minni afrakstri þjóðarinnar. Ríkið þyrfti einnig í ríkari mæli að tryggja fjármagn inn í greinina.

Markaðsleiðin þýðir aftur á móti færri störf við veiðar og hefðbundna vinnslu en hærri laun og meiri ávinning fyrir þjóðarbúið. Það er líka besta leiðin til að treysta arðsemi fyrirtækjanna og opna fyrir fjárfestingu í nýsköpun sem aftur fjölgar betur launuðum störfum.

Markaðslausnin er uppistaðan í því kerfi sem verið hefur við lýði í aldarfjórðung. Að ákveðnu marki hefur þó verið tekið tillit til félagslegra sjónarmiða á kostnað hagsmuna heildarinnar. Vinstri stjórnin gekk mjög langt í því á síðasta kjörtímabili að auka hlut fálagslega kerfisins.

Almenningur hefur notið hagræðingar í sjávarútvegi í gegnum hærra gengi sem styrkt hefur kaupmátt. Um það hefur ekki verið góð sátt. Því hafa kröfur um skattheimtu aukist. Almenningur nýtur þá hagræðingarinnar í gegnum skatta sem þingmenn útdeila síðan.

Það er erfitt að verja annað markmið en það sem eykur mest ábata greinarinnar og þjóðarheildarinnar. Vandinn er að koma ábatanum út til fólksins í eðlilegum hlutföllum eftir þessum tveimur leiðum gengis og skattheimtu. Leitin að sátt ætti að snúast um þetta.

Frjóar umræður

Fyrr í þessum mánuði efndi Viðreisn til fjölmenns fundar um nýjar leiðir í fiskveiðistjórnun. Formaður nýrra heildarsamtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Jens Garðar Helgason, ræddi þar með skarpri og metnaðarfullri sýn á framtíðina um þau tækifæri sem felast í því að tengja saman veiðar og margvíslega nýsköpun í hátækni.

Til þess að nýta þá möguleika sem við blasa með nýrri þekkingu þarf greinin að búa við góð efnahagsleg skilyrði. Það þarf að styrkja samkeppnishæfnina en ekki veikja. Ánægjulegt er að forysta nýrra samtaka sýnist vera opin fyrir málefnalegri umræðu sem leitt gæti í átt til friðsamlegrar sambúðar sjávarútvegsins og fólksins í landinu.

Á sama fundi kynnti Benedikt Jóhannesson hugmyndir um svokallaða markaðslausn. Segja má að hún felist í því að í stað þess að stjórnmálamenn semji um nýtingartíma verði hann fundinn með uppboði á ákveðnu hlutfalli aflaheimilda á hverju ári. Um leið ræður markaðurinn því afgjaldi sem renna á í ríkissjóð.

Það er ekkert alveg nýtt undir nálinni í þessum efnum. En hér er á ferðinni útfærsla sem er vel þess virði að ræða til þrautar í þeim tilgangi að gefa greininni viðspyrnu til að takast á við nýjar áskoranir með langtíma sjónarmið í huga um leið og eðlilegt afgjald kemur í ríkissjóð eftir leiðum markaðarins.

Vel færi á því að flytja frjóa umræðu þessara tveggja manna inn í sali Alþingis.

 

 

 

 

30. January 2015